Líf í borgarholtsskóla

25/05/2023 | Ritstjórn

Brautskráning að vori 2023

Skólameistarar í hópi útskriftarnema

Skólameistarar í hópi útskriftarnema

Brautskráning Borgarholtsskóla fór fram í Háskólabíói fimmtudaginn 25. maí 2023. Athöfninni var auk þess streymt á facebook síðu skólans af nemendum í kvikmyndagerð undir stjórn Þorgeirs Guðmundssonar kennara.  Að þessu sinni voru brautskráðir 159 nemendur af öllum brautum skólans. Fyrir athöfnina spilaði Skólahljómsveit Mosfellsbæjar undir stjórn Daða Þórs Einarssonar en hljómsveitin hefur spilað í öllum útskriftarathöfnum frá stofnun skólans og var stjórnandanum færður smá þakklætisvottur.

Ársæll Guðmundsson skólameistari setti athöfnina og Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir aðstoðarskólameistari fór yfir það helsta sem gerðist á önninni í skólastarfinu.

Sönghópur Borgarholtsskóla fluttu tvö tónlistaratriði undir stjórn Guðbjargar Hilmarsdóttur kennara. Fyrra lagið sem þau fluttu var Fallegur dagur, lag og ljóð Bubba Morthens. Síðara lagið var flutt í lok athafnar en það var Vikivaki, lag Valgeirs Guðjónssonar við texta Jóhannesar úr Kötlum.

Skólameistarar brautskráðu nemendur og nutu við það aðstoðar sviðsstjóra. Fjölbreytt námsframboð er í Borgarholtsskóla og endurspeglaði útskriftarhópurinn þennan fjölbreytileika.

Fjölmargir nemendur hlutu viðurkenningu fyrir frábæran námsárangur og ástundun en skólinn á marga velunnara sem eru örlátir þegar kemur að því að gefa gjafir. Meðal þeirra sem veittu að þessu sinni voru Bílanaust, Bílgreinasambandið, Fossberg, Gastech, Héðinn – vélsmiðja, Háskóli Íslands, Hreysti, Iðan -fræðslusetur, Jak, Kemi/Paulsen, Klif, Landvélar, Málningarvörur, NaustMarine, New Wave Iceland, Röggi, Sindri, Stilling og síðast en ekki síst, danska sendiráðið og þýska sendiráðið.

Ávarp útskriftarnema flutti Júlía Margrét Jónsdóttir sem útskrifaðist af listnámsbraut með leiklist sem kjörsvið. Ávarp 10 ára útskriftarnema flutti Sigurjón Geirsson Arnarson sem útskrifaðist úr bílamálun en er nú starfandi kennari við skólann. Ávarp 20 ára útskriftarnema flutti Eva Rún Michelsen.

Ársæll Guðmundsson flutti kveðjuorð til nemenda og lagði hann út frá jákvæðri sálfræði en samkvæmt henni eru nokkur atriði sem eru mikilvæg fyrir þau sem vilja öðlast hamingju. Rannsóknir hafa sýnt að trú lyftir andanum og skapar von gagnvart framtíðinni. Vinátta, sterk tengsl við fjölskyldu og öflugt félagslegt tengslanet eru allt mikilvægir þættir í hamingjuleitinni. Ársæll hvatti til þess að njóta líðandi stundar, lifa í núinu og helga sig þeim verkefnum sem þarf að leysa með gleði, áhuga og opnum huga. Allir búa yfir styrkleika og hver og einn þarf að gefa sér tíma til að finna og þróa eigin styrkleika og nota þá svo til góðra verka. Ársæll benti á að með réttu og léttu hugarfari væri auðveldara að höndla hamingjuna. Hann hvatti nemendur til að iðka hugleiðslu, gera öðrum gott og trúa á eitthvað fallegt og þá myndi hugurinn lýsast.

Þrír kennarar láta af störfum sökum aldurs þetta vorið en það eru Sigurborg Jónsdóttir, þýskukennari sem hóf störf við skólann 2002, Guðrún Ragnarsdóttir, kennari í listnámi sem hóf störf við skólann árið 2002 og Guðlaug María Bjarnadóttir leiklistarkennari sem hóf störf við skólann árið 2001. Þessum kennurum var þakkað kærlega fyrir störf í þágu nemenda og samstarfsfólks og var þeim færður þakklætisvottur.

Ársæll þakkaði velunnurum skólans og starfsfólki öllu fyrir ánægjulegt samstarf á skólaárinu. Að lokum þakkaði hann útskriftarnemendum fyrir þeirra skerf til skólans og minnti á að enginn skóli er betri en nemendurnir sem í honum eru og hvernig þeir  bera honum vitni þegar fram líða stundir.

Útskriftarnemum öllum er óskað innilega til hamingju með áfangann.