23/01/2026 | Ritstjórn
Söngkeppni NFBHS/Borgóvisjón

Vigdís Bára, sigurvegari kvöldsins
Fimmtudaginn 22. janúar var söngkeppni Nemendafélags Borgarholtsskóla haldin með pomp og prakt í sal skólans. Sjö nemendur stigu þar á stokk og sungu sig inn í hjörtu áheyrenda. Sigurvegari kvöldsins og þar með fulltrúi skólans í Söngkeppni framhaldsskólanna var Vigdís Bára Arnþórsdóttir en hún söng lagið From the Start eftir Laufeyju Lin. Í öðru sæti var Agnes Lind Auðunsdóttir með lagið Dreamer sem er sömuleiðis eftir Laufeyju Lin. Þriðja varð Særún Georgsdóttir sem söng lagið Rolling in the deep eftir Adele. Aðrir keppendur stóðu sig með sóma og átti dómnefndin úr vöndu að ráða. Hún var skipuð þeim Þráni Árna Baldvinssyni gítarleikara og tónlistarkennara, Flosa Jóni Ófeigssyni leiklistarkennara og Katrínu Ingu fyrrum nemanda skólans og söngspíru.
Kynnar kvöldsins voru Nökkvi Jarl Bjarnason og Guðbjörg Hilmarsdóttir, kennarar við skólann, en þau vöktu mikla lukku með flutningi sínum á laginu Something Stupid sem þekktast er í flutningi feðginanna Franks og Nancy Sinatra í hléi. Guðmundur Martin, nemandi við skólann, söng einnig í hléi en hann flutti lagið Fly me to the Moon sem einnig er eftir Frank Sinatra.
Það er augljóst að skólinn státar af hæfileikafólki bæði á meðal nemanda og í starfsfólkshópnum og verður spennandi að fylgjast með tónlistarlífi skólans í framtíðinni.

Keppendur kvöldsins ásamt dómnefnd og kynnum

