Líf í borgarholtsskóla

28/02/2023 | Ritstjórn

Frammistöðumælingar nemenda á afrekssviði

Venja hefur verið að mæla líkamlega þætti hjá nemendum á afrekssviði og er það gert á hverju ári. Í þetta sinn voru um fimm mælingar að ræða; hæð og þyngd (valkvætt), CMJ, Davies og 30m sprettur.

Unnbjörg Jóna Ómarsdóttir frá Smart Timer heimsótti afrekssviðið en hún er hluti af teymi sem hannar nú smáforrit sem gera hraðamælingar einfaldari og notendavænni. Bornar voru saman niðurstöður úr 30m spretti, annars vegar með notkun hraðhliða frá Háskólanum í Reykjavík og hins vegar með notkun Smart Timer smáforritsins. Niðurstöðurnar voru mjög svipaðar og því verður spennandi að fylgjast með þróun þessa forrits.

CMJ stendur fyrir Countermovement Jump . Markmið prófsins er að mæla lóðréttan stökkraft. Nemendur fá tvær tilraunir, fyrri með hendur á mjöðm allan hreyfiferilinn og seinni með hendur lausar. Með réttri tækni á nemandi að hoppa hærra í seinni tilraun.

Í Davies prófinu þreyta nemendur vöðvaúthaldspróf í eina mínútu. Nemendur eru í armbeygjustöðu með 91 cm bil á milli handa. Í eina mínútu eiga þeir að reyna að snerta handarbak gagnstæðrar handar eins oft og hægt er.

30m spretturinn var framkvæmdur með notkun hraðahliðs og smáforrits frá Smart Timer. Nemendur fengu tvær tilraunir.

Kennarar og nemendur stóðu sig vel í framkvæmd mælinganna og það er mál manna að flæðið hafi verið sérstaklega gott og það hafi verið almenn ánægja með daginn. Niðurstöðurnar verða svo aðgengilegar nemendum fljótlega á næstu vikum. Það er sérstaklega ánægjulegt að þeir nemendur sem þreyta sömu próf í yngri landsliðum geta þá borið saman niðurstöður og bætt við gagnabankann sinn.

Hægt er að fylgjast með afrekssviði Borgarholtsskóla á Instagram en þar má finna stutt myndband frá mælingadeginum .