Líf í borgarholtsskóla

16/12/2022 | Ritstjórn

Brautskráning

Föstudaginn 16. desember 2022 fór fram brautskráning í Borgarholtsskóla.

Skólahljómsveit Mosfellsbæjar undir stjórn Daða Þórs Einarssonar spilaði í anddyri skólans á meðan gestir voru að koma sér fyrir í sætum.

Ársæll Guðmundsson skólameistari og Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir aðstoðarskólameistari forfölluðust bæði á síðustu stundu og Anton Már Gylfason áfangastjóri og Magnea Hansdóttir, fjármálastjóri, hlupu í skarðið.

Anton Már setti athöfnina og gaf orðið til Nökkva Jarls Bjarnasonar kennara sem var kynnir og stýrði athöfninni.

Magnea Hansdóttir flutti annál annarinnar. 1268 nemendur stunduðu nám við skólann auk 60 grunnskólanema sem tóku valáfanga í málm- og véltæknigreinum. Hún fór yfir það helsta sem gerst hefur á önninni, bæði í hinu formlega skólastarfi og hjá Nemendafélagi skólans sem staðið hefur sig mjög vel.

Sönghópur Borgarholtsskóla undir stjórn Guðbjargar Hilmarsdóttur kennara flutti tvö tónlistaratriði. Fyrra lagið sem þau fluttu var Fallegur dagur en lagið og textinn er eftir Bubba Morthens. Hið síðara var hinn þekkti jólasálmur Heims um ból eftir Franz Gruber við texta Sveinbjörns Egilssonar.

Anton Már og Magnea sáu um brautskráningu nemenda ásamt sviðstjórum en 142 nemendur voru brautskráðir af mismunandi námsbrautum skólans og sumir útskrifuðst af fleiri en einni braut. Fjölmörg verðlaun og viðurkenningar voru veitt fyrir mjög góðan námsárangur. Birta Sigríður Hoffman Arnarsdóttir útskrifaðist með frábæran námsárangur frá leikskólaliðabraut og hlaut hæstu einkunn á stúdentsprófi en hún lauk jafnframt viðbótarnámi til stúdentsprófs. Það er hefð í Borgarholtsskóla að færa útskriftarnemum í desember hýasintu að gjöf og út frá þeirri hefð var ekki brugðið.

Thelma Rós Arnardóttir flutti kveðjuávarp útskriftarnema.

Anton flutti ræðu Ársæls til útskriftarnema. Hann gerði hugarfar og hamingjuna að umtalsefni og hvað það væri sem gerði fólk hamingjusamt. Hann hvatti nemendur til þess að tileinka sér hugarfar grósku en það hugarfar er jákvætt og uppbyggjandi og einkennist meðal annars af því að taka áskorunum með gleði, líta á gagnrýni sem tækifæri, láta mistök verða lærdóm og hafa hugrekki til að reyna eitthvað nýtt. Umfram allt hvatti hann nemendur til að njóta líðandi stundar og vera þakklát fyrir hana.

Að lokum var útskriftarnemum óskað til hamingju með áfangann, gæfu og gengis.

Öllu starfsfólkinu var þakkað fyrir vel unnin störf á önninni ásamt því að þeim, sem með einum eða öðrum hætti, komu að framkvæmd og skipulagningu brautskráningarinnar voru færðar sérstakar þakkir.

Fleiri myndir frá athöfninni eru á facebook síðu skólans .